Færsluflokkur: Bloggar

Boðar heimsfrið og skotaskuldaniðurfellingar

Hannes Hannesson

Hannes Hannesson athafnamaður mun leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum.  Hannes, sem nýverið gekk í Framsóknarflokkinn og er 14. framsóknarfélaginn í Reykjavík, boðar heimsfrið og niðurfellingar á skotaskuldum.  Hannes tekur við af Óskari Bergssyni sem fáir kannast við.

"Ég er alfarið á móti stríðum og mun þess vegna vinna að heimsfriði á kjörtímabilinu fái ég umboð kjósenda" sagði Hannes vígreifur á blaðamannafundi sem lauk rétt í þessu.  "Einnig hafa skotaskuldir gleymst í umræðunni um skuldaniðurfellingar og mun ég fella þær allar niður".  Hannes er 65 ára og býr með kindinni Sólveigu.


Gróðurhúsaáhrif mest í Hveragerði

HveragerðiSamkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar á undanförnum mánuðum eru gróðuhúsaáhrif á Íslandi mest í Hveragerði, aðallega í gróðurhúsum.  Engum vafa er undirorpið að hlýnun jarðar á síðustu 100 árum hefur haft áhrif á náttúruna hvert sem litið er, en þó mest í Hveragerði, þar sem gróðurhúsum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum.   Bæjarstjórnin í Hveragerði hyggst ekkert aðafast.

Skyndikynnavika Rauða krossins

Rauði krossinn

Í næstu viku verður skyndikynnavika hjá Rauða kross Íslands og verða skyndikynnanámskeið alla daga vikunnar í húsnæði samtakanna við Efstaleiti.  Er öllum sjálfráða einstaklingum velkomið á sækja námskeiðin og er aðganseyrir fallegt bros og frjálslegt fas.  Samtökin tilkynntu fyrir skömmu að þau hefðu nú einkarétt á allri fræðslu sem byrji á "skyndi".  Á vormánuðum eru fyrirhuguð skyndibita- og skyndilausnanámskeið.


Fjórir starfsmenn Landsbankans ekki enn ákærðir

Landsbankinn

Fjórir starfsmenn gamla Landsbankans hafa ekki enn verið ákærðir fyrir markaðsmisnotkun, skjalafals, yfirhylmingar, fjárdrátt eða eitthvað annað ólöglegt. Eru þeir einu starfsmenn bankans sem ekki hafa lent á borði Sérstaks saksóknara en þeir störfuðu í mötuneyti bankans. Segjast þeir lifa á milli vonar og ótta um að þeir verði ákærðir fyrir "eitthvað aflandsfélagaafleiðukjaftæði" eins og einn þeirra komst að orði. "Við höfum ekki gert neitt ólöglegt nema að narta í nokkrar gullflögur og borðað afgangs rússakavíar sem skilinn var eftir á borðum mötuneytisins" sagði einn starfsmannanna. Hann vill ekki láta nafn síns getið en gefur þó upp að fyrsti stafurinn í nafni hans sé J.


Sjálfstæðismenn stærstir í Reykjavík

Vel fór á með leiðtogum stjórnmálaflokkanna við ráðhúsið í gær

Samkvæmt mælingum Raunvísindastofnunar eru Sjálfstæðismenn stærstir í Reykjavík en Framsóknarmenn minnstir.  Meðalhæð Sjálfstæðismanna er um 2 metrar, næst stærstir eru fulltrúar Bjartrar framtíðar, um 6 tommur og 3 únsur en Framsóknarmenn eru minnstir, um 3 fet.


Fór á æfingu hjá Daft Punk

Francois HollandeFrancois Hollande Frakklandsforseti tilkynnti fyrir stundu að það sé af og frá að hann hafi átt í ástarsambandi við franska leikkonu í leyniíbúð í París.  Ástæða þess að hann sést yfirgefa íbúðina með hjálm á höfðinu sé sú að hann hafi verið að koma af æfingu með rafhljómsveitinni Daft Punk.  "Reyndar á ég stóran hluta textans í laginu Get Lucky, en innblástur sótti ég í dálæti mitt á frímerkjum.  Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um málið" sagði Hollande.

Tax-free dagar í fríhöfninni

Tax free

Tax-free dagar í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli voru fram eftir nóvembermánuði og er þeim lokið.


Leikskólakennararnir fundnir

Leikskólakennararnir fundust á Ibiza

Leikskólakennararnir, sem vantaði til starfa á leikskólum borgarinnar, eru fundnir.  Fundust þeir á eyjunni Ibiza við leik og söng og verða fluttir heim með fyrstu vél.  Enn vantar 23 starfsmenn grunnskólanna en grunur leikur á að þeir séu í golfferð í Portúgal og er þeirra ákaft leitað.


Sjálfstæðisflokkurinn fengi 100% fylgi

Jón Sigurðsson er vinsæll meðal landsmanna 

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 100% fylgi landsmanna ef Jón Sigurðsson frelsishetja væri formaður flokksins samkvæmt könnun sem Þjóðskjalasafnið efndi til.  Góð þátttaka var í könnuninni og svaraði slatti af fólki, en óákveðnir voru farnir.  Ekki náðist í Jón við gerð fréttarinnar.


Ætla ekki að spila með bolta í sumar

Adidas boltinn sem nota á í sumar

Knattspyrnufélög ÍA og Stjörnunnar ætla ekki að spila með bolta í sumar á Íslandsmótinu í knattspyrnu í sumar.  Miklar deilur hafa staðið um Adidas boltann sem nota á í leikjum sumarsins og leikmenn almennt óánægðir með tuðruna, og hafa ÍA og Stjarnan nú opinberlega hafnað henni.  "Ætli við skokkum ekki bara um völlinn og tökum nokkrar teygjur" sagði Urriði Laxdal liðsstjóri Stjörnunnar í viðtali við fréttastofuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband