Gengur bundinn til kosninga um formann Sjálfstæðisflokksins

Rafn GiesenhofenRafn Giesenhofen, landsfundarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fyrir Slésvík og Holstein, mun ganga bundinn til kosninga um formann flokksins á landsfundinum um helgina. 

Rafn, sem iðulega bindur sig á tyllidögum að hans eigin sögn, segist hlakka mikið til kosningarinnar.  "Ég mun kjósa Geir Hallgrímsson" sagði Rafn.


Býður upp á viðskiptavild í Kolaportinu

Einar AntonssonAltmuligmaðurinn Einar Antonsson mun bjóða upp á viðskiptavild í sölubási sínum í Kolaportinu um næstu helgi.  Er um að ræða viðskiptavild sem bæði er hægt að hækka þegar vel árar og gjaldfæra þegar illa árar, allt eftir því sem eigandi óskar.  Í samtali við fréttastofu segir Einar bjóða mest upp á viðskiptavild sem búið sé gjaldfæra hjá bönkum og sparisjóðum.  

"Það má segja að þetta sé viðskiptavild með reynslu sem gengið hefur í gegnum tímana tvenna" segir Einar.  "Það er búið að fara illa með hana en hægt að gera upp með yfirtökum og kaupum á öðrum fyrirtækjum.  Hún er á vildarkjörum." sagði Einar í samtali við fréttastofu, og bætti við að von væri á arði í básinn hans sem boðinn verði til sölu verði á næstu misserum.


Gekk til liðs við breska verkamannaflokkinn

Jónmundur SveinbjörnssonJónmundur Sveinbjörnsson þingmaður frjálslyndra og vinstrimanna gekk til liðs við breska verkamannaflokkinn í dag.  Jónmundur hefur verið óánægður með stjórn frjálslyndra og vinstri manna og segist hafa fengið hljómgrunn fyrir skoðanir sínar í breska verkamannaflokknum.  "Ég viðraði skoðanir mínar fyrir breskum vinum mínum um daginn og ákvað í kjölfarið að ganga til liðs við breska verkamannaflokkinn.  Þeir eru á sömu nótum og ég" sagði Jónmundur.

 Er þetta í fyrsta skiptið sem íslenskur þingmaður skiptir yfir í erlendan þingflokk.


Framsóknarmaður með pólitíska samvisku

Trausti EggertssonFlokksbundinn Framsóknarmaður, Trausti Eggertsson bóndi í Bárðardal í Þingeyjasýslu, segist vera með samviskubit.  Er þetta fyrsti Framsóknarmaðurinn á Íslandi svo vitað sé sem þjáðst hefur af samviskubiti. 

Trausti segist vera sannfærður um að Framsóknarflokkurinn eigi ekki að skipta sér af ríkisstjórn landsins heldur eingöngu verja hana falli.  "Kjörfylgi okkar er ekki beysið og þess vegna ættum við ekki að gera kröfur á þessa ríkisstjórn heldur gera það sem við sögðumst ætla að gera, verja hana falli og leyfa henni að vinna úr málum" sagði Trausti.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins sagði í stuttu samtali við fréttastofuna að hann efaðist um að flokksskírteini Tryggva yrði endurnýjað.  "Það er greipt í hjarta okkar Framsóknarmanna að segja eitt og gera annað og þess vegna rímar pólitísk sannfæring Trausta ekki við stefnu flokksins".


Jónína Ben ekki gestur í Silfri Egils um helgina?

Jónína BenediktsdóttirLíkur eru á að Jónína Benediktsdóttir verði ekki gestur í Silfri Egils um helgina.  Jónína segist ekki hafa fengið boð um að koma í þáttinn en hún hefur verið fastagestur undanfarnar vikur.  "Egill hefur ekki boðið mér ennþá en ég bíð við símann" sagði Jónína í samtali við fréttastofu.

Hélt veislu á kostnað Óskars Bergssonar

Veislugestir Ársæls áður en allt fór úr böndum

Ársæll Undórsson endurskoðandi hélt ríflega 20 manna veislu í heimahúsi sínu á kostnað Óskars Bergssonar, fulltrúa Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og formanns borgarráðs.  Ársæll efndi til veislunnar þar sem hann og eiginkona hans Sigurlín Steindórsdóttir hafa haft áhyggjur af stöðu efnahagsmála og vildu greina vinum og kunningjum sínum frá þeirra hlið í þeim efnum.

"Við ákváðum að bjóða vinum okkar til veislu til að hressa upp á mannskapinn og greina þeim frá okkar sýn á efnahagsmálunum.  Þetta byrjaði með spjalli en endaði í einu allsherjar fylleríi enda veittum við vel á kostnað Óskars" sagði Ársæll.  Ársæll var ekki með tölu yfir endanlegan kostnað en miðað við fjöldan af tómum kampavínsflöskum á víð og dreif um húsið hélt hann að kostnaðurinn yrði ekki undir 15mkr.  "Ég hef ekki talað við Óskar en fékk tilskilin leyfi hjá Húsdýragarðinum.  Óskar fer létt með að borga þetta" sagði Ársæll.


Davíð með tilboð um að leika í Home Alone 8

DavíðDavíð Oddsson hefur fengið tilboð frá bandaríska leikstjóranum John Hughes um að leika í kvikmyndinni Home Alone 8.  Hingað til hefur í Home Alone myndunum ungur drengur orðið viðskila við foreldra sína og þurft, einn heima hjá sér, að berjast við þjófa og illþýði.  Macaulay Culkin lék í fyrstu tveimur myndunum og varð í kölfarið stórstjarna.  Í áttundu myndinni hins vegar er ætlunin að gera mynd um seðlabankastjóra sem uppgötvar einn daginn að hann er orðinn einn eftir í seðlabankanum og þarf að berjast við mótmælendaskríl með potta og pönnur sem reyna að komast inn í bankann.

Tökur á myndinni eiga að hefjast 2. júní, daginn eftir að Eiríkur Guðnason hættir störfum.  Davíð mun ekki hafa gefið leikstjóranum afdráttarlaust svar en hefur sett þau skilyrði að Hrafn Gunnlaugsson komi að gerð myndarinnar.  Að sögn talsmanns John Hughes hefur Davíð sent honum myndina Opinberun Hannesar og umsögn Sæbjörns Valdimarssonar í Morgunblaðinu um myndina.


Hamas sigrar í ísraelsku þingkosningunum

 Hamasisrael

Íslömsku andspyrnusamtökin Hamas sigruðu mjög óvænt í ísraelsku þingkosningunum í gær.  Búist var við sigri Likud bandalagsins eða Kadima flokksins en á endasprettinum náði Hamas meirihluta á ísraelska þinginu, Knesset.

"Þetta kemur okkur gríðarlega á óvart þar sem Ísraelar hafa verið að murka lífið úr okkur og óbreyttum Palestínuaröbum en batnandi mönnum er best að lifa" sagði Hamed Al-Humani blaðafulltrúi Hamas í morgun.  "Við munum byrja á því að rífa niður múrinn á Vesturbakkanum og opna Gaza svæðið fyrir allri umferð.  Þetta lítur ljómandi vel út" sagði Hamed.


Björgvin Þór Hafsteinsson viðskiptamaður ársins

Björgvin Þór HafsteinssonMarkaðurinn í Fréttablaðinu hefur valið Björgvin Þór Hafsteinsson viðskiptamann ársins.  Í ályktun Markaðarins segir að Björgvin hafi sagt kreppunni stríð á hendur og boðið fólki í greiðsluvanda upp á óvenjulegan valkost sem aukið geti tekjur þess verulega.  Undanfarið hefur Björgvin boðið fólki í greiðsluvanda, sem ætlar sér í gjaldþrot, ríflegar þóknanir gegn því að það kaupi eignir á lánssamningum og afhendi Björgvini gegn greiðslu

"Þessi óvenjulega þjónusta Björgvins er kærkomin búbót fyrir þau heimili í landinu sem berjast við afleiðingar efnahagskreppunnar á Íslandi.  Björgvin er í fylkingarbrjósti endurreisnarinnar á Íslandi" segir í ályktun Markaðarins.


Dressman gaurarnir styðja Davíð

Dressman

Mennirnir í Dressman auglýsingunum, Dressman gaurarnir svokölluðu, hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu Stuðningsmanna Davíðs Oddssonar um að hann verði áfram í Seðlabankanum.  Þeir hafa verið einkar ánægðir með störf Davíðs á undanförnum árum.  "Eftir að Davíð lækkaði bindiskylduna hafa mun fleiri Íslendingar keypt Dressman föt, sem hefur stuðlað að fleiri auglýsingum þar sem við göngum hægt og erum flottastir" sagði Rune Hildebrand, einn af Dressman gaurunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband