Fimmtudagur, 12. febrúar 2009
Davíð með tilboð um að leika í Home Alone 8
Davíð Oddsson hefur fengið tilboð frá bandaríska leikstjóranum John Hughes um að leika í kvikmyndinni Home Alone 8. Hingað til hefur í Home Alone myndunum ungur drengur orðið viðskila við foreldra sína og þurft, einn heima hjá sér, að berjast við þjófa og illþýði. Macaulay Culkin lék í fyrstu tveimur myndunum og varð í kölfarið stórstjarna. Í áttundu myndinni hins vegar er ætlunin að gera mynd um seðlabankastjóra sem uppgötvar einn daginn að hann er orðinn einn eftir í seðlabankanum og þarf að berjast við mótmælendaskríl með potta og pönnur sem reyna að komast inn í bankann.
Tökur á myndinni eiga að hefjast 2. júní, daginn eftir að Eiríkur Guðnason hættir störfum. Davíð mun ekki hafa gefið leikstjóranum afdráttarlaust svar en hefur sett þau skilyrði að Hrafn Gunnlaugsson komi að gerð myndarinnar. Að sögn talsmanns John Hughes hefur Davíð sent honum myndina Opinberun Hannesar og umsögn Sæbjörns Valdimarssonar í Morgunblaðinu um myndina.