Föstudagur, 2. maí 2008
Ríó Tríó eykur gjaldeyrisforða sinn
Hljómsveitin Ríó Tríó hefur aukið gjaldeyrisforða sinn umtalsvert undanfarna daga. Er þetta í samræmi við stefnu hljómsveitarinnar um að skapa meiri stöðugleika í landinu og renna stoðum undir íslensku krónuna.
"Okkur hefur tekist það sem Seðlabanka Íslands hefur ekki tekist ennþá, það er að auka gjaldeyrisforðann. Á meðan starfsmenn seðlabankans eru hver um annan þveran í golfferðum látum við verkin tala" sögðu hljómsveitarmeðlimir kampakátir í viðtali við fréttastofuna.
Eins og kunnugt er sagði hljómsveitin erlendum vogunarsjóðum stríð á hendur í kjölfar gengisfalls krónunnar og hefur markvisst unnið að eflingu efnahagslífsins. Einnig hefur hún gagnrýnt matsfyrirtækin Fitch og S&P harðlega að undanförnu. "Þessir menn lifa í steypuhræru. Við sjálfir myndum ekki lána þeim fyrir rúnstykki" sagði í harðorðri grein sem birtist í Financial Times 30. mars.