Fimmtudagur, 5. júlí 2007
Námskeið í lífsleikni vinsæl hjá íslenskum útgerðarmönnum
Stjórnendur íslenskra útgerða flykkjast nú á námskeið í lífsleikni sem haldin eru á sérstökum sumarnámskeiðum í grunnskólum landsins. Hafa námskeiðin vakið slíka lukku að grunnskólarnir anna ekki eftirspurn, uppselt er á öll námskeiðin og biðlistar langir. Eru jafnvel dæmi þess að sumir útgerðarmenn séu að fara oftar en einu sinni.
Námskeiðin felast fyrst og fremst í því að örva tilfinningagreind og auka félagslega og persónulega hæfni nemenda til þess að þekkja sjálfan sig. Lífsleikni er sögð samanstanda af sálfræðivísindum, félagsvísindum, taugafræði og líffræði. Kjarni lífsleikni mun vera sá að greindarvísitala ráði ekki fararheill okkar og hafi mun minna vægi en álitið hefur verið hingað til. Tilfinningagreind, sem tengja má skapstillingu, samúð með öðrum og félagslegri ábyrgð, er vanmetinn þáttur í lífshamingju okkar. Markmið námskeiðanna er að nemendurnir láti ekki undan skyndihvötum og hafi hemil á hugsunum sínum svo þær leiði ekki til heimskulegra athafna.