Föstudagur, 8. júní 2007
Ísrael í dag kemur í stað Silfur Egils á Stöð 2
Þáttur Ólafs Jóhannssonar, Ísrael í dag, mun leysa Egil Helgason og Silfrið af hólmi á Stöð 2 næsta vetur. Ari Edwald mun hafa haft snör handtök og snúið sér til Ólafs þegar ljóst mátti vera að Egill væri á förum. Félagið Zion Vinir Ísraels munu verða helsti styrktaraðili þáttarins. Þáttur Ólafs var áður á sjónvarpsstöðinni Omega og munu forráðamenn hennar vera óhressir með gang mála, enda var Ólafur nýbúinn að skrifa undir 30 ára samning.
Ólafur er að vonum ánægður með nýja samninginn. "Það er mér mikill heiður að fá að vera með þátt um hina Guðsútvöldu þjóð á svo útbreiddum miðli sem Stöð 2 er. Þetta var orðið hálfþreytt á Omega, enginn peningur til, nokkrar hræður að horfa og alltaf sama tuggan. Nú þegar Zion Vinir Ísrael hafa samþykkt að styrkja þetta Guðsútvalda dagskrárefni verður þátturinn líflegri og skemmtilegri".
Beðið er viðbragða Omega en að endingu vildi Ólafur benda þeim á, sem sóttu um vist á samyrkjubúum í sumar, að þau geti gleymt því, þau verði öll send á Vesturbakkann til að vinna við hinn heilaga múr sem skilur að hið góða frá hinu illa.