Sunnudagur, 20. maí 2007
Samkeppnismál: Flúðasveppir kæra Ömmubakstur
Í aprílhefti Pésa, tímarits Hrunamannahrepps, er athyglisvert viðtal við Ragnar Kr. Kristjánsson, fyrrverandi eiganda Flúðasveppa, þar sem hann heldur því fram að félagið, með Georg Ottósson núverandi eiganda í fararbroddi, sé að undirbúa lögsókn á hendur Ömmubakstri fyrir skaðlega undirverðlagningu á flatkökum.
"Það er hreint með ólíkindum hversu samkeppnisaðstæður okkar, sem höfum komið að svepparækt á Íslandi, eru erfiðar og hvernig stjórnvöld hafa markvisst grafið undan þessum rekstri með ólögmætum og ósanngjörnum aðgerðum til þess að efla neyslu annarra matvara á kostnað sveppa" sagði Ragnar fullum hálsi. "Það segir sig sjálft að gegndarlaus kaup ríkisstofnana á flatkökum þessa fyrirtækis hafa kippt undan okkur stoðum þessa rekstrar, og aðgerðarleysi Samkeppniseftirlitsins og Neytendasamtakanna er til skammar þegar Ömmubakstur auglýsir á öllum miðlum að það séu alls þrjár flatkökur í pakka, svo ég tali nú ekki um bragðlausu pizzurnar þeirra, sem margar eru án sveppa", sagði Ragnar myrkur í máli.
Grettir Ásmundarson hjá Samkeppniseftirliti segist deila skoðun Ragnars með mörgum innan Samkeppniseftirlitsins og sjálfur borðar hann ekki flatkökur og aðeins ömmupizzur með sveppum. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.
Talsmenn Ömmubaksturs vísa þessum ummælum Ragnars á bug. Yrsa "amma" Jónasardótir, eigandi Ömmubaksturs, segir að í sögu fyrirtækisins hafi hún aldrei orðið vitni að öðrum eins arfavitlausum þvættingi síðan Mjólkursamsalan auglýsti AB mjólk sem góðri fyrir þarmaflóruna. "Við munum berjast á hæl á hnakka við þessa einokunarverslun sem telur flatkökur og bragðlausar pizzur hafi eitthvað gera með sveppi sem seldir hafa verið í einokunarverslun hér á landi síðan þetta fyrirtæki var sett á laggirnar", sagði Yrsa að lokum.